Tilnefnt hefur verið í sjötta skipti til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins en annað hvert ár eru þau veitt barna- eða unglingabók sem þykir bera af öðrum sambærilegum bókum sem gefnar hafa verið út í Færeyjum, Grænlandi eða Íslandi.
Íslenska dómnefndin um Barna- og unglingabókaverðlaunin tilnefnir til verðlaunanna árið 2012 skáldsöguna Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur (Bjartur 2011).
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:
Í sögunni Með heiminn í vasanum er sagt frá Ara, sem er einmana auðkýfingssonur. Foreldrar hans hafa flutt of oft til að hann nái að tengjast skólafélögum. Ari tengist þó fóstru sinni frá Filippseyjum tilfinningaböndum og síðar móðurfjölskyldu sinni í Reykjavík. Þegar Ari og Katla frænka hans uppgötva „flöskuskeyti” í kínversku leikfangi upphefst æsileg flétta, bæði í raunheimum og netheimum, og að lokum tekst Ara og vinum hans að ná markmiði sínu þ.e. „að byrja“ að bjarga heiminum.
Með heiminn í vasanum er vel skrifuð, skemmtileg og mjög spennandi saga sem hefur þunga undiröldu. Margrét Örnólfsdóttir er hvorki boðandi né kennandi í verkinu en það á þó skýrt erindi við samtímann. Hún tekur útgangspunkt í veruleika unglinga í samtíma sem mótast af nýjum fjölmiðlum, mishollri afþreyingu og kröfum sem foreldrarnir hafa enga innsýn í.
Í bókinni er bent á hve berskjölduð börn eru í alþjóðavæðingunni þar sem þau eru rifin upp með rótum, flutt gegn vilja sínum, sum eru seld í þrælkun og önnur lokuð inni í gylltum búrum. Sýnt er hve litla athygli og umhyggju þarf til að bjarga eða eyða bernskunni og hve mikils virði traust og samstaða er í mannlegum samskiptum yfirleitt. Hér er á ferð bók sem krefst athygli.
Grænlenska dómnefnd verðlaunanna hefur tilnefnt bókina Kaassalimik oqaluttuaq (Sagan um Kaassali) eftir Lars-Pele Berthelsen með myndskreytingu eftir Pia Falck Pape. Dómnefnd Færeyja hefur tilnefnt bókina Skriva í sandin eftir Marjuna Syderbø Kjelnæs.
Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins eru veitt annað hvert ár og falla einni þessara bóka í skaut í ágúst 2012. Verðlaunahafinn hlýtur 60.000 danskar krónur eða um 1,2 milljónir íslenskra króna.
Valið fer þannig fram að í desember, árið áður en verðlaunin eru veitt, tilnefna dómnefndir landanna eina bók hver frá sínu landi. Vestnorræna dómnefndin velur síðan eina af þessum bókum sem svo hlýtur verðlaunin í ágúst árið eftir.
Árið 2002 hlaut bókin Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason verðlaunin, árið 2004 bókin Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, árið 2006 hlaut færeyska bókin Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson verðlaunin, árið 2008 fékk Kristín Helga Gunnarsdóttir verðlaunin fyrir bókina Draugaslóð og í fyrra hlaut Gerður Kristný verðlaunin fyrir Garðinn.
Íslensku dómnefndina skipa prófessor Dagný Kristjánsdóttir formaður, Ármann Jakobsson dósent og Anna Heiða Pálsdóttir bókmenntafræðingur.
Ítarlegri upplýsingar um tilnefningarnar: https://www.vestnordisk.is/id/1283
Reglur verðlaunanna: https://www.vestnordisk.is/id/1444