Kostir og gallar fiskveiðistjórnunarkerfa Íslands, Færeyja og Grænlands verða ræddir í þaula á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fer á Sauðarkróki þriðjudag og miðvikudag í næstu viku, 8. og 9. júní.
Um 50 vestnorrænir þingmenn, ráðherrar, háskólamenn og sérfræðingar, auk þingmanna annarra Norðurlanda, munu taka þátt í umræðunum. Markmið ráðstefnunnar er að kryfja og auka skilning á fiskveiðistjórnunarkerfum landanna þriggja, kostum hvers kerfis og göllum. Sérstaklega verða efnahagslegir þættir skoðaðir sem og áhrif á viðgang fiskistofna. Löndin munu fá dýrmæta þekkingu og innsýn í fiskveiðistjórnunarkerfi hvert annars.
Ísland, Færeyjar og Grænland eiga það sameiginlegt að sjávarútvegurinn er einna mikilvægastur atvinnugreina landanna. Í ljósi þess ákvað ársfundur Vestnorræna ráðsins árið 2009 að frumkvæði Íslandsdeildarinnar að fiskveiðistjórnunarkerfi vestnorrænu landanna yrði þema ráðsins árið 2010. Formaður Íslandsdeildar, Ólína Þorvarðardóttir, segir að Ísland, Færeyjar og Grænland hafi beitt talsvert ólíkum aðferðum við stjórnun fiskveiða sinna og að margir í löndunum telji að þeirra heimaland búi yfir besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. ,,Í öllum löndunum hefur þó komið fram gagnrýni á ríkjandi kerfi og jafnvel kröfur um endurskoðun þess, sérstaklega á Íslandi og í Færeyjum og er því áhugavert fyrir löndin þrjú að fá góða innsýn í stjórnun fiskveiða hvert annars“, segir Ólína. Ætli menn að endurskoða stjórnun veiðanna er ekki verra að geta litið til reynslu stórveiðiþjóðanna í næsta nágrenni. ,,Þekking á kerfi nágranna okkar getur veitt okkur mikla reynslu og þekkingu, sem er ekki síst mikilvæg fyrir stjórnmálamenn þar sem það á endanum eru þeir sem taka ákvörðunina um hugsanlega breytingu á kerfinu“, segir Ólína.
Ráðstefnuna sækir fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að skýra frá endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu sambandsins sem fram fer um þessar mundir. Að sögn Ólínu er það ráðinu mikilvægt að fá innsýn í þá vinnu til þess að geta í framhaldinu reynt að hafa áhrif á umræðuna sem þar á sér stað.
Á ráðstefnunni verður jafnframt farið yfir samstarf Vestur-Norðurlanda á sviði sjávarútvegsmála.
Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru Armando Astudillo frá framkvæmdastjórn ESB,Emanuel Rosingfrá Grænlandi, norski þingmaðurinn Frank Bakke Jensen, Helgi Áss Grétarssoncand.jur., Helgi Hjörvar forseti Norðurlandaráðs,Niels Vestergaard prófessor frá Danmörku, dr. Stig Gezelius frá Noregi, Þórólfur Matthíasson prófessor, forstjórar Hafrannsóknarstofnana Færeyja og Íslands Eilif Gaard og Jóhann Sigurjónsson auk vestnorrænu sjávarútvegsráðherranna Jacob Vestergaard, Ane Hansen og Jóns Bjarnasonar.
Upplýsingar um ráðið
Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipa forseti Grænlandsþings Josef Motzfeldt formaður,
Ólína Þorvarðardóttir varaformaður og lögþingsmaður Kári P. Højgaard varaformaður. Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Lögþings Færeyja, Landsþings Grænlands og Alþingis. Í ráðinu sitja sex þingmenn frá hverju landi.
Nánari upplýsingar: Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður og varaformaður ráðsins, s. 892 3139
Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri, vestnordisk@althingi.is, 5630731.