Hagsmunir Vestur-Norðurlanda og Norðurskautsins fara saman, stuðla ber að samstarfi um kvikmyndagerð, tryggja að borgarar landanna geti flutt matvæli til eigin nota milli landanna auk þess sem Vestnorrænu löndin eiga fullan rétt á að nýta lifandi auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt. Þetta ályktaði ársfundur Vestnorræna ráðsins sem haldinn var á Bifröst dagana 23. til 25. ágúst.
Í ljósi þeirra fjölmörgu hagsmuna sem Vestur-Norðurlönd eiga sameiginlega með löndum á Norðurskautssvæðinu ákvað ráðið að þema næsta árs verði ,,Sameiginlegir hagsmunir Vestur-Norðurlanda gagnvart þróun og umsvifum á Norðurskautssvæðinu“. Áhersla verður lögð á að greina efnið út frá efnahagslegri þróun á svæðinu og þróun atvinnulífs, greina varnarstöðu landanna og sóknarfæri gagnvart þeim auknu umsvifum sem fyrirsjáanleg eru í kjölfar umhverfisbreytinga á Norðurskauti. Ráðið mun óska eftir því að utanríkisráðherrar landanna taki þátt í ráðstefnu um málið næsta vor þar sem leitast verður við að skilgreina þá hagsmuni sem löndin eiga sameiginlega.
Ársfundurinn áréttaði þá skoðun ráðsins, að Vestur-Norðurlönd hefðu fullan rétt til sjálfbærra veiða hvala og sela.
Ráðið ákvað jafnframt að fara þess á leit við menningarmálaráðherra landanna að þeir stuðluðu að því að koma á samstarfi milli landanna á sviði kvikmynda- og þáttagerðar.
Ólína Þorvarðardóttir fráfarandi formaður ráðsins benti í ræðu á fundinum á mikilvægi þess að tryggja að rödd vestnorræna svæðisins sé haldið á lofti í svæðasamstarfi þar sem ákvarðanir eru teknar sem varða svæðið. ,,Þess vegna hefur ráðið byggt upp samstarf við bæði Evrópuþingið, norðurskautsþingmannasamtökin og Norðurlandaráð“, sagði Ólína. ,,Þar hefur ráðinu til dæmis tekist að benda á mikilvægi öflugs björgunarviðbúnaðs á Norður-Atlantshafi og að bæði stærri og minni ríki á svæðinu þurfi að koma að því verkefni auk þess sem sem við höfum bent á hversu illa bann við innflutningi selaafurða hefur komið við fátæk veiðimannasamfélög á Grænlandi“ sagði Ólína.
Á fundinum var samþykkt að hvetja ríkisstjórnir landanna til að tryggja að vestnorrænir borgarar fái að flytja kjöt og fisk til eigin nota og upp að vissu marki óhindrað milli landanna.
Fundurinn vottaði Norðmönnum samúð vegna hryðjuverkaárásarinnar í síðasta mánuði.
Yfir 20 vestnorrænir og norskir þingmenn tóku þátt í ársfundinum auk Steingríms J. Sigfússonar fjármála- og samstarfsráðherra.
Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins skipa alþingismennirnir Ólína Þorvarðardóttir formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason, Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þráinn Bertelsson. Auk þeirra sitja 6 færeyskir og 6 grænlenskir þingmenn í ráðinu
Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja. Löndin þrjú skipa sex fulltrúa hvert í Vestnorræna ráðið.