Alþjóðlegrar rannsóknar á makríl krafist

 

Makríldeilan er farin að hafa áhrif á andrúmsloftið í norrænu samstarfi eins og glögglega hefur komið í ljós í stjórnmálaumræðum á Norðurlandáðsþinginu í Helsinki go now.  Það sagði Ólína Þorvarðardóttir varaformaður Vestnorræna ráðsins í ræðu sem hún hélt á þinginu sem haldið er dagana 29. október til 1. nóvember.  Hún lagði til at Norðurlandaráð ætti frumkvæðið að því að gerð yrði alþjóðleg rannsókn á hegðun makrílsins svo að deiluaðilar geti byggt kröfur sínar á vísindalegum rökum. Formaður Vestnorræna ráðsins Josef Motzfeldt, forseti Grænlandsþings, tók undir að mikilvægt væri fyrir Norðurlandaráð að eiga frumkvæði að rannsóknum um nýtingu Vestur-Norðurlanda á lifandi auðlindum hafsins svo auka megi skilning Norðurlanda á aðstæðum Færeyja, Íslands og Grænlands.  Annar varaformaður Vestnorræna ráðsins Henrik Old gagnrýndi afstöðu Evrópusambandsins og Noregs í makríldeilunni harkalega.

Ólína Þorvarðardóttir hvatti jafnframt í ræðu sinni Norðurlandaráð til að horfa til hagsmuna Vestur-Norðurlanda í nýrri Norðurskautsstefnu sinni.  „Eftir því sem löndunum fjölgar sem eiga hagsmuna að gæta á Norðurskautssvæðinu og sýna því áhuga, þeim mun mikilvægara verður það fyrir Norðurlöndin að efla samstarf sitt um sameiginlega hagsmuni og efla þannig áhrif sín“, sagði Ólína og benti á að hagsmunir Íslands, Færeyja og Grænlands væru miklir á svæðinu.  Hún benti á að meginniðurstaða þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin hafi verið á Grænlandi í mars hafi verið að samstarf landanna þriggja um sameiginlega hagsmuni sé lykilatriði ætli þau að efla áhrif sín á Norðurskautssvæðinu.