Framtíð húsnæðismála aldraðra, öryggisviðbúnaðar á Norður-Atlantshafi og Hoyvíkur-sáttmálinn verða til umfjöllunar á þremur fundum Vestnorræna ráðsins í Færeyjum dagana 6. til 9. júní.
Hin árlega þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins skiptist að þessu sinni í tvo meginþætti: Framtíðarlausnir í húsnæðismálum aldraðra í vestnorrænu löndunum annars vegar og hins vegar öryggisviðbúnaður í ljósi breyttra aðstæðna á Norður-Atlantshafi.
Framtíð húsnæðismála aldraðra
Á fyrri hluta þemaráðstefnunnar verður farið yfir hvernig húsnæðismálum aldraðra og elliheimilum er háttað í vestnorrænu löndunum og hvernig megi auka lífsgæði aldraðra. Sérstaklega verður horft til þess hvernig uppfylla megi nútímakröfur um aðbúnað og þjónustu, þar á meðal hvaða sjónarmið arkitektar þurfa að hafa í huga við hönnun nýrra elliheimila og þjónustuíbúða.
Áhersla verður lögð á hvernig þjóðirnar geti nýtt sér reynslu og sérþekkingu hverrar annarar í þessum efnum, en vestnorrænu þjóðirnar standa frammi fyrir áþekkum viðfangsefnum og vandamálum á þessu sviði; dreifbýl lönd, víðfeðm landsvæði og einangraðar byggðir. Ráðstefnan hefst hinn 7. júní.
Sjá dagskrá og fyrirlesara hér:
https://www.vestnordisk.is/Apps/WebObjects/SW.woa/wa/dp?id=1283&detail=13284
Viðbúnaður á Norður-Atlantshafi
Auknar siglingar í Norðurhöfum hafa í för með sér ný verkefni og nýjan vanda, sem verða í brennidepli ráðstefnu, sem Vestnorræna ráðið heldur í samvinnu við Norræna ráðið og Norrænu Atlantsnefndina (nora).
Ein afleiðing loftslagsbreytinga eru auknar skipaferðir á Norðurhöfum. Opnun siglingaleiða og tíðari ferðir farþegaskipa á svæðinu gefa fyrirheit um einnig bætast við ögrandi verkefni á sviði öryggisviðbúnaðar á sjó. Þau kalla á aukna samvinnu, bæði innan vestnorræna svæðisins og á alþjóðavísu.
Á ráðstefnunni verður leitast við að greina hvernig öryggisviðbúnaði er nú háttað á svæðinu og hvaða geta er til raunverulega fyrir hendi til þess að bregðast við slysum á hafi úti. Þá verður einnig fjallað um hinn nýja samning Norðurskautsráðsins um leit og björgun, sem undirritaður var í Nuuk í liðnum mánuði, og hver næstu skref skuli vera.
Ráðstefnan verður sett í Norræna húsinu í Þórshöfn hinn 9. júní.
Sjá nánar: http://www.nora.fo/index.php?pid=193&cid=305
Meira en 50 vestnorrænir og norrænir þingmenn, ráðherrar, fræðimenn og sérfræðingar munu taka þátt í umræðum á ráðstefnunum tveimur.
Fyrsti fundur Hoyvíkur-nefndarinnar
Ákveðið hefur verið að stofna til þingmannanefndar um Hoyvíkur-sáttmálann, fríverslunarsamning Íslands og Færeyja. Fyrsti fundur nefndarinnar verður haldinn mánudaginn 6. júní, en þar verður m.a. valinn formaður og lög nefndarinnar samþykkt. Í nefndinni verða sex þingmenn frá Alþingi Íslendinga og aðrir sex frá Lögþingi Færeyinga. Þá mun Inatsiartut (landsþing) Grænlendinga skipa sex áheyrnarfulltrúa með málfrelsi í nefndina.
Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þjóðþinga Grænlands, Íslands og Færeyja.
Í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins sitja Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður, sem er formaður, en varaformenn eru Lögþingsmaðurinn Kári P. Højgaard og Josef Motzfeldt, forseti Inatsisartut, landsþings Grænlands.
På billedet er Vestnordisk Råd samlet på sidste årsmøde, i august 2010.