Eins og í öðrum heimshlutum hafa margir íbúar Vestur-Norðurlanda ekki næga menntun. Við þessari staðreynd verður að bregðast og mikilvægt er að löndin leggi sitt af mörkum svo efla megi menntun á svæðinu. Þetta var meðal niðurstaðna á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var í höfuðstöðvum Grænlands-flotastöðvar danska sjóhersins í Grænadal dagana 5.-7. ágúst.
Ein niðurstaðan á ráðstefnunni var að þrátt fyrir að menntun yngri kynslóða sé eitt mikilvægasta verkefni landanna þá sé jafnframt áríðandi að huga í auknum mæli að menntun fullorðinna sem lítillar skólagöngu hafa notið. Það sé engin ástæða til að aðgreina umræðu um menntun yngri kynslóðanna og fullorðinsfræðslu eins og margir gera. Menn ættu frekar í þessu samhengi að beina sjónum að símenntun, skóla fyrir alla. Þannig verða Vestur-Norðurlönd betur í stakk búinn til þátttöku í alheimssamkeppninni.
Yfirskrift ráðstefnunnar var „möguleikar ófaglærðs starfsfólks á Vestur-Norðurlöndum til menntunar“. Meðal spurninga sem leitað var svara við var hver eigi að bera ábyrgð á menntun ófaglærðra. Á ábyrgðin að vera hins opinbera, atvinnulífsins eða einstaklingsins.
Á ráðstefnunni var eining um að vestnorrænu löndin eigi að tryggja að símenntun sé í boði og að stuðlað verði að auknum möguleikum ófaglærðs starfsfólks til náms í löndunum. Ráðstefnugestir voru sammála um að það væri hagkvæmt væri fyrir löndin að efla samstarf sitt á menntasviði enda geti þau lært mikið hvert af öðru. Jafnframt var eining um að óska eftir því við menntamálaráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands að kortlagt verði hvaða samningar séu í gildi milli landanna auk þess sem skilgreint verði hvaða vandamál hvert land standi helst frammi fyrir áður en ráðist verði í að hanna lausnir.
Þegar kannað verður hvaða vandamál blasa við hverju landi er ákaflega mikilvægt að tekið verði tillit til menningar hvers lands. Ekki er hægt að yfirfæra kerfi eins lands yfir á annað án þess að hugað sé að því að aðlaga kerfið menningu landsins og þeim vandamálum sem þar er við að etja.
Á ráðstefnunni var einnig rætt hversu mikla áherslu beri að leggja á iðnnám, hversu mikla áherslu beri að leggja á almenna fullorðinsfræðslu auk þess hvert hlutfall verknáms og bóklegs náms eigi að vera.
Þátt í ráðstefnunni tóku 30 þingmenn vestnorrænu þinganna og sérfræðingar, auk þingmanna frá Stórþingi Noregs og sænska þinginu. Niðurstöður ráðstefnunnar verða teknar til frekari meðhöndlunar á ársfundi ráðsins síðar í mánuðinum.
Frekari upplýsingar veitir Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri ráðsins, 563 0731.