Efla verður björgunarviðbúnað á Norður-Atlantshafi. Það var meðal þess sem kom fram á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um björgunarmál á Norður-Atlantshafi sem haldin er í Norræna húsinu í Tórshavn í samstarfi við Norðurlandaráð. Á fundinum kom fram að umferð á og í kringum Norðurskautið hefur verið að aukast mikið undanfarin ár og útlit er fyrir að sú aukning verði enn meiri á komandi árum.
Ólína Þorvarðardóttir formaður Vestnorræna ráðsins bendir á að í kjölfar umhverfisbreytinga sem opnað hafa aðgengi að heimskautssvæðinu hafi umferð farþega- og flutningaskipa aukist gífurlega. En björgunarviðbúnaður á svæðinu hafi ekki verið efldur að sama skapi. Þvert á móti hafi sá viðbúnaður dregist verulega saman eftir að Bandaríkjamenn fluttu þyrlubjörgunarsveit sína frá Íslandi árið 2006.
,,Það var einkar ánægjulegt að ríkisstjórnir Norðurskautsráðsins undirrituðu samstarfssamning um björgunarmál á Norður-Atlantshafi í Nuuk í Grænlandi í síðasta mánuði“ segir Ólína. ,,Að okkar mati er samningurinn ánægjulegt fyrsta skref, en hins vegar er ljóst að efla verður enn frekar alþjóðlegt samstarf og sem allra fyrst verður að efla búnað til björgunarmála á svæðinu auk þess sem ekki verður hjá því komist að leggja málaflokknum til meira fé“ segir Ólína.
Hún bendir á að það hljóti að verða næstu skrefin hjá Norðurskautsráðinu að ræða hvernig útgjöldin við að efla viðbúnaðinn eigi að skiptast á milli landa. Hún leggur á það áherslu að mörg lönd eigi hagsmuna að gæta á svæðinu og því ekki hægt að varpa ábyrgð björgunarmála einungis yfir á Vestur-Norðurlönd, Noreg og Danmörku. Fleiri verði að koma þar að.
„Úrlausnarefnið varðar svæðið í heild sinni, en ekki einungis hvert land fyrir sig“ segir Ólína. Hún segir mikilvægt að þeir aðilar sem nýta sér opnari siglingarleiðir og möguleika á auðlindanýtingu á hafsbotni við norðurheimskaut, t. d. skipafélög, olíufélög og jafnvel tryggingafélög,, taki í ríkara mæli ábyrgð á umgengnis- og öryggismálum á svæðinu í samstarfi við stjórnvöld. „Hinn pólitíski samráðsvettvangur milli landa er ómissandi, en ábyrgðin liggur víðar“, segir Ólína.