Vestnorræna ráðið fordæmir hótanir ESB

Vestnorræna ráðið fordæmir harðlega hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum vegna makrílveiða landanna, sem og refsiaðgerðir sambandsins gegn Færeyjum vegna síldarveiða þeirra.  Það var samþykkt á  ársfundi ráðsins sem hófst hinn 19. ágúst í Narsarsuaq á Grænlandi.  Í ráðinu sitja 18 þingmenn frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.
 
Í ályktun sinni undirstrikar Ráðið að aðferðir ESB séu ekki viðundandi í alþjóðasamskiptum og mótmælir þeim aðferðum sem ESB velur að nota gegn nágrannaríkjum sínum, í krafti stærðar sinnar og afls. Það geri sambandið þrátt fyrir að það hafi verið bent á, meðal annars af norskum sjávarlíffræðingi, að makríllinn geti valdið umhverfisskaða í hafinu þar sem stofninn sé orðinn of stór.  
 
Þetta hefur meðal annars gerst í kjölfar loftlagsbreytinga síðustu ára. Ráðið bendir á að ágreiningur sé til staðar, og tekur þá afstöðu að aðilar málsins semji um lausn þess í stað þess að hóta hvor öðrum. 
 
Ráðið bendir á að fyrri aðgerðir ESB hafi haft alvarleg áhrif á lítil samfélög í vestnorrænu löndunum, til dæmis þegar sambandið hafi lagt innflutningsbann á selvörur. Bannið hafi haft afar neikvæðar afleiðingar fyrir lítil grænlensk veiðisamfélag. 
 
Vestnorræna ráðið hvetur Noreg til að styðja Færeyjar og Ísland og taka afstöðu gegn aðferðum ESB. Ráðið harmar orð norska sjávarútvegsráðherrans, Lisbeth Berg-Hansen, þar sem hún lét í ljós að hún styddi refsiaðgerðirnar gegn Færeyjum og að Noregur íhugaði að fylgja í fótspor ESB. Vestnorræna ráðið hvetur fulltrúa hinnar norrænu frændþjóðar, norsku ríkisstjórnina, til að endurskoða afstöðu sína. 
 
Vestnorræna ráðið hvetur einnig Norðurlandaráð til að taka málið upp og styðja Færeyinga og Íslendinga í þessu máli. 
 
Að lokum hvetur Vestnorræna ráðið ríkisstjórn Grænlands – Naalakkersuisut – til að opna grænlenskar hafnir fyrir þau færeysku skip og vörur sem kunna að verða fyrir barðinu á refsiaðgerðum ESB, en Danmörk á sem kunnugt er aðild að ESB og þarf því væntanlega að framfylgja banninu.