Það er sameiginlegt Íslandi, Færeyjum og Grænlandi að ekkert er mikilvægara efnahagslífi landanna en sjávarútvegur.  Því ber löndunum að auka samstarf sitt á sviði sjávarútvegsmála.  Meðal annars ættu sjávarútvegsráðherrar landanna að tryggja að gerð verði nákvæm úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi stjórnun veiða deilistofna.  Þetta ályktaði ársfundur Vestnorræna ráðsins sem haldinn var í Rúnavík og Þórshöfn í Færeyjum dagana 25.-28. ágúst.

 

Að frumkvæði Ólínu Þorvarðardóttur, varaformanns ráðsins og formanns Íslandsdeildar þess, ákvað ársfundurinn að þema ráðsins árið 2010 yrði fiskveiðistjórnunarkerfi vestnorrænu landanna.  „Ísland, Færeyjar og Grænland beita mjög ólíkum aðferðum við stjórnun fiskveiða sinna og telja margir í löndunum að þeirra heimaland búi yfir besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“ segir Ólína.  Hún bendir á að í öllum löndunum hafi jafnframt komið fram gagnrýni á ríkjandi kerfi og jafnvel kröfur um endurskoðun þess, sérstaklega á Íslandi og í Færeyjum.  „Í því samhengi er einkar áhugavert fyrir löndin þrjú að fá betri innsýn í stjórnun fiskveiða hvert annars.  Ætli menn að endurskoða stjórnun veiðanna er mikilvægt að þekkja í þaula valkostina.  Liður í því er að safna þekkingu og skoðunum á kerfi nágranna okkar sem eru með öflugustu fiskveiðiþjóðum heims.  Löndin geta lært mikið af reynslu og þekkingu hvert annars,“ segir Ólína.  Það sé ekki síst mikilvægt fyrir stjórnmálamenn en það eru á endanum þeir sem taka ákvörðunina um hugsanlega breytingu á kerfinu.  Hún bendir jafnframt á að Evrópusambandið hafi hug á því að breyta sameiginlegri fiskveiðistefnu sinni.  Því sé mikilvægt fyrir fiskveiðiþjóðir í Norður-Atlantshafi að auka enn á þekkingu sína vilji þær hafa áhrif á umræðuna innan sambandsins.

 

Fiskveiðistjórnunarkerfi landanna verða krufin auk þess sem farið verður yfir kosti þeirra og galla á sérstakri þemaráðstefnu sem haldinn verður á Sauðárkróki í byrjun júní á næsta ári.

 

Á ársfundinum var jafnframt eining um að tryggja beri aukið samstarf landanna á sviði menntamála.  Það geti komið sér vel fyrir bæði skóla, nemendur og kennara landanna.  Það var meðal annars samþykkt að hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla landanna.

 

Fundurinn samþykkti einnig að hvetja menntamálaráðherrana til að koma á tilraunaverkefni þar sem samstarf um fjarnám á Vestur-Norðurlöndum yrði formfest.

 

Ólína Þorvarðardóttir segir að Vestnorræna ráðið hafi ákveðið að leggja það til við ríkisstjórnirnar að þær auki samstarf sitt um bóklegt nám, iðnaðar- og starfsnám fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum. Tilgangur þess er að sögn Ólínu að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á vinnumarkaði.

 

Á fundinum var forseti Grænlandsþings Josef Motzfeldt kjörinn formaður Vestnorræna ráðsins en Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður og Kári P. Højgaard lögþingsmaður voru kjörin varaformenn.

 

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Lögþings Færeyja, Landsþings Grænlands og Alþingis.  Í ráðinu sitja sex þingmenn frá hverju landi.