Fiskveiðistjórnunarkerfi Vestur-Norðurlanda verða tekin til skoðunar á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Íslandi í júní á næsta ári. Það tilkynnti Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður ráðsins, á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var í Stokkhólmi. Hún segir at ráðstefnan muni bjóða upp á beinan samanburð á kvótakerfunum á Íslandi og Grænlandi og sóknardagakerfinu í Færeyjum, með hliðsjón af þáttum eins og verndunarsjónarmiðum og arðsemi.
„Á ráðstefnunni verður gerður samanburður á kostum og göllum hinna mismunandi kerfa, það verða umræður um lausnir á vandamálum eins og brottkasti auk þess sem rætt verður sérstaklega hvaða sameiginlegu aðkomu Vestur-Norðurlönd geti haft að mótun nýrrar sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB“, segir Ólína.
Til ráðstefnunnar verður boðið þingmönnum og sjávarútvegsráðherrum Vestur-Norðurlanda, Evrópuþingmönnum, sérfræðingum auk Joe Borg, framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála hjá ESB. Samkvæmt Ólínu er það einkar þýðingarmikið, þar sem endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB lýtur m.a. að þeirri spurningu hvort eigi að stjórna fiskveiðum með kvótum eða sóknardögum.
Ásamt Ólínu tóku Josef Motzfeldt, formaður ráðsins og forseti Grænlandsþings, og Kári P. Højgaard, lögþingsmaður, þátt í Norðurlandaráðsþingi fyrir hönd Vestnorræna ráðsins.
Meðal annarra efna sem forsætisnefndin lagði áherslu á á þinginu voru menntamál en Vestnorræna ráðið hélt þemaráðstefnu í sumar sem fjallaði um námsmöguleika fyrir ófaglærða. Þar kom meðal annars fram að brottfall úr framhaldsskólanámi hefur verið allt að 40%. Í Færeyjum eru einungis um 70% ungmenna skráð í framhaldsskóla að loknu grunnskólanámi. Í Grænlandi eru um 65% einstaklinga á vinnualdri án framhaldsmenntunar. Í ræðu benti Ólína á að ástæður þessa lægju meðal annars í neikvæðu viðhorfi til langskólanáms, að atvinnulífið hafi verið í samkeppni við menntakerfið og að ekki virtist vera nægur stuðningur fyrir nemendur í framhaldsnámi hvorki fjárhagslega né faglega í formi námsráðgjafar og námsaðstoðar.